VERND og raunveruleg ábyrgð
Í síðustu viku kom saman hópur fólks til að mótmæla því að ungur maður, sem hlaut 12 ára dóm fyrir manndráp, hafi verið fluttur á áfangaheimilið Vernd.
Reiði þessara einstaklinga er skiljanleg, enda má ætla að fjölskylda fórnarlambsins upplifi málið á mjög tilfinningalegan hátt. En þegar kemur að því að ræða og mótmæla ákvörðunum eins og þeim sem varða afplánun og reynslulausn, er nauðsynlegt að beina mótmælum sínum á rétta staði og skilja hvernig kerfið virkar hér á Íslandi.
Vernd tekur ekki ákvarðanir um afplánun:
Það er mikilvægt að átta sig á því að áfangaheimilið Vernd hefur ekki það vald að ákveða hverjir vistast þar þó að loka samþykkið sé þeirra. Vernd er ekki ábyrg fyrir stjórnvaldsákvörðunum um hvar einstaklingar afplána dóma sína. Ákvörðun um að flytja einstaklinga á Vernd er tekin af Fangelsismálastofnun, samkvæmt lögum sem Alþingi Íslendinga ákveður.
Dómsmálaráðuneytið framfylgir lögunum og heimilar Fangelsismálastofnun til að taka þær ákvarðanir sem ráðuneytið hefur eftirlit með. Íslensk löggjöf setur þannig rammann um hvernig einstaklingar, sérstaklega ungir brotamenn, fá aðgang að úrræðum eins og áfangaheimilum. Það er því mikilvægt fyrir þá sem eru ósammála ákvörðunum um afplánun, reynslulausn eða flutning í úrræði eins og Vernd, að beina þeim mótmælum til Dómsmálaráðuneytisins eða Fangelsismálastofnunar.
Þá er mjög mikilvægt að hafa í huga að það að vera á Vernd er ekki að vera frjáls maður. Vistfólk Verndar er enn í afplánun og því rangt að tala um að það sé frjálst. Ökklaband tekur við á eftir Vernd og þar er fólk einnig enn að afplána og meira að segja þegar það fær að lokum reynslulausn er það enn undir hælnum á kerfinu.
Lög byggja á staðreyndum, ekki tilfinningum:
Þó svo að það sé skiljanlegt að fólk upplifi sterkar tilfinningar vegna þessara mála, er það einnig mikilvægt að átta sig á að löggjöf og ákvarðanir í refsivörslukerfinu byggja ekki á tilfinningum heldur á faglegum og lögfræðilegum forsendum. Íslenskt réttarkerfi fylgir skýrum lögum, sem eru meðal annars mótuð með hliðsjón af alþjóðlegum mannréttindareglum og norrænum fordæmum.
Við höfum enn ekki innleitt betrunarstefnu hér á landi, en þetta stigskipta ferli – þar sem fangar fara smá saman úr lokuðum úrræðum yfir í meira opnar aðstæður eins og áfangaheimili, rafrænt eftirlit og reynslulausn – eru mikilvæg skref í átt að því að betra einstaklinga. Þau byggja á þeirri trú að þegar einstaklingur fær stuðning til að laga sig að samfélaginu á ný, minnka líkurnar á frekari afbrotum.
Að fækka brotaþolum, ekki hefna fórnarlamba:
Íslenska refsivörslukerfið miðar að því að fækka brotaþolum með því að draga úr glæpum og endurkomu brotamanna í fangelsi. Þessi nálgun er í grundvallaratriðum ólík þeirri sem beitt er í sumum öðrum löndum, þar á meðal Póllandi, þar sem hefndarsjónarmið og löng fangelsisvist getur verið í fyrirrúmi.
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að markmið okkar er að skapa samfélag þar sem einstaklingar sem hljóta dóm geta snúið aftur sem betri manneskjur. Þetta er gert til að koma í veg fyrir fleiri brot og til að verja samfélagið til lengri tíma. Með því að beita endurhæfingarúrræðum eins og Vernd erum við að tryggja að einstaklingar fái tækifæri til að bæta hegðun sína, læra nýja hæfni og aðlagast samfélaginu á nýjan hátt.
Vernd fer að verða 65 ára og hefur aldeilis sannað gildi sitt á þeim tíma og ef eitthvað er þyrfti að horfa meira á úrræði eins og Vernd enda vita flestir að fangelsisvist er úrræði frá miðöldum, sem sannað er að hafi neikvæð áhrif á fólk og samfélagið. Það er því alltaf betra að horfa til vel rannsökuð og uppfærð úrræði nú á dögum.
Að skilja mismuninn á réttarkerfum:
Það er einnig mikilvægt að átta sig á því að réttarkerfið á Íslandi er ólíkt því í Póllandi. Hér á landi hefur áhersla verið lögð á endurhæfingu, en ekki eingöngu á refsingu. Með því að leyfa einstaklingum að taka ábyrgð á eigin lífi í stigskiptu ferli, þar sem þeir fá meiri ábyrgð eftir því sem afplánun líður, fækka líkurnar á því að þeir brjóti aftur af sér. Þetta skilar sér í færri brotaþolum.
Við getum haft samúð með þeim sem upplifa sorg og reiði yfir því að hafa misst ástvin í hendur þessa manns, en á sama tíma verðum við að horfa á heildarhagsmuni samfélagsins. Að einblína eingöngu á refsingar fyrir einstök mál, án þess að horfa á langtímaáhrifin á samfélagið, getur leitt til fleiri glæpa og fleiri brotaþola.
Að tryggja öruggt samfélag fyrir alla:
Lögin á Íslandi eru byggð á þeirri hugmynd að allir eiga möguleika á endurhæfingu. Það er ekki eingöngu í þágu fanga heldur líka samfélagsins.
Við vitum að flestir fangar munu á endanum koma út aftur í frelsið, og því er mikilvægt að tryggja að þeir fái rétta aðstoð og stuðning til að verða betri einstaklingar.
Ef við setjum alla í langa fangelsisvist, án nokkurs konar endurhæfingar, eykur það líkurnar á frekari glæpum þegar viðkomandi losnar. Markmiðið er að fá betri einstaklinga út í samfélagið til að tryggja öryggi allra.
Að lokum:
Það er eðlilegt að fólk upplifi reiði og sorg vegna slíkra mála, en mótmælin verða að beinast að réttum aðilum – við verðum alltaf að hafa hagsmuni samfélagsins í heild í fyrirrúmi, jafnvel þegar tilfinningar eru sterkar í einstökum málum.
Með því að fylgja þessu betrunarferli, þar sem einstaklingar fá tækifæri til að laga sig að samfélaginu með stuðningi og betrun, erum við að tryggja að íslenskt samfélag verði öruggara og minna verði um glæpi í framtíðinni.