Guðmundur Ingi Þóroddsson

Rafræn skilríki

Flest okkar göngum að því vísu að geta framvísað persónuskilríkjum þegar farið er fram á að við gerum grein fyrir því hver við erum. Þannig eigum við í viðskiptum við fyrirtæki, stofnanir og stjórnsýsluna. Með aukinni tæknivæðingu hafa skilríkin að miklu leyti færst yfir á rafrænt form og um leið sitja ákveðnir hópar eftir í fortíðinni. Þar á meðal eru fangar og fatlaðir einstaklingar.

Í Danmörku var sett í lög að allir þurfi að hafa aðgang að rafrænu pósthólfi og er allt sent þangað til fólks í stað til dæmis ábyrgðarpósts. Þetta hafði í för með sér að fangar í lokuðum öryggisfangelsum fengu aðgang að tölvu með interneti til að komast í pósthólfið sitt, banka og einnig til að geta gengið frá skattaskýrslum og sinna öllu því sem allir þurfa að gera.

Mjög algengt er að við hjá Afstöðu aðstoðum fólk sem hefur verið í afplánun en hefur ekki skilað skattaskýrslum í mörg ár og jafnvel áratugi. Það getur verið flókið að vinna úr því ásamt að reyna að ná höndum yfir sektir, sakakostnað og meðlög. Þetta er í raun skuldafangelsi og svartnætti sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Þetta er hægt að laga á mjög einfaldan hátt og höfum við hjá Afstöðu oft komið með góð og gagnleg ráð til yfirvalda um hvernig sé hægt að leysa þetta ásamt ýmsu öðru. Við teljum nauðsynlegt að allir fangar hafi aðgang að tölvu og rafrænum skilríkjum þar sem þeir geta sinnt sínum nauðsynlegu og lögbundnu verkefnum sem allir þurfa að gera. Þá þarf að sinna bankamálum og öðru sem fólk gerir þar sem rafrænna skilríkja er krafist.

Fangaverðir vita vissulega hversu flókið þetta getur verið og aðstoða eftir mesta megni en það er auðvitað bara takmarkað því á endanum þarf síma til að komast í rafræn skilríki. Og smart símar eru óleyfilegir bæði í lokuðum sem opnum fangelsum.

Þar sem umræðan er hávær núna um rafræn skilríki og rætt um ákveðna hópa sem ekki geta nýtt sér þá þjónustu er nauðsynlegt að benda á þá og krefjast þess að sett verði í lög ákvæði sem tryggir aðgengi allra að jafn sjálfsögðum hlut og að framvísa skilríkjum sínum til þess að halda utan um lífið eins og það leggur sig. Það er nefnilega þannig að þeir sem sviptir eru frelsinu með dómi munu snúa aftur út í samfélagið og þá er mikilvægt að öll mál séu á hreinu þannig það þurfi ekki að vera fyrsta verkefni að leysa úr öllum flækjum sem hefðu aldrei þurft að verða. Það er getur verið mörgum ofviða því miður.

Samhliða köllum við eftir markvissari fjármálakennslu í fangelsum landsins. Við sem samfélag þurfum að fá fólk í betra ástandi út úr fangelsunum og ekki endalaust að setja upp hindranir.

Lausnir fyrir alla – ekki bara suma.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *