Guðmundur Ingi Þóroddsson

Ráðgjafar, starfsfólk eða bakverðir í heilbrigðis- og velferðarþjónustu á sakaskrá?


​Undanfarnar vikur hefur Afstaða sent tölvupósta á ýmsa opinbera aðila sem aðila í þriðja geiranum sem sinna velferða og mannúðarmálum eftirfarandi texta hér að neðan. Mjög vel hefur verið tekið í okkar erindi og virðist sem aðilar séu að átta sig á mikilvægi þess að útiloka ekki fólk frá atvinnu þrátt fyrir að vera á sakaskrá. Afstaða mun hér eftir senda á alla þá aðila sem við sjáum að óski aðeins eftir fólki með hreint sakavottorð og jafnvel bera slík mál fyrir dóm ef ekki verður brugðist við. Þess má geta að líklegt er að eitt slíkt mál fari fyrir dómstóla strax í byrjun árs 2022.
 
Afstaða hefur einnig sent Félagsmálaráðuneytinu svipað erindi þegar kemur að bakvarðaskráningu í velferðarþjónustu en ekki þarf hreint sakavottorð í þau störf samkv. lögum en okkur hefur ekki borist svar ennþá.  Afstaða hvetur þó Félagsmálaráðuneytið nú í ljósi neyðarástands í heilbrigðismálum að taka þetta ákvæði út við skráningu fólks í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar og meta fólk, störf og brotið.
 
Tölvupóstur sýnishorn:
 
Í auglýsingu um laust starf …………………… hjá………………………. er það gert að skilyrði að umsækjandi hafi hreint sakavottorð. Við teljum það ekki samræmast 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindasjónarmiðum almennt að útiloka með þessu hóp þjóðfélagsins sem getur verið að öðru leyti hæfur til starfans. Einnig má benda á lög um atvinnufrelsi manna.
 
 
Þrátt fyrir að vissar tegundir refsidóma séu þess eðlis að ekki sé æskilegt að dómþoli starfi innan ………………………………… eru þeir þó margskonar. Þannig er ólíklegt að sakavottorð hafi sjálfkrafa þær afleiðingar að dregið sé úr trú almennings og skjólstæðinga á starfseminni.  Þá bendum við á lög um félagsþjónustu, þar sem þeir sem hafa verið dæmdir fyrir ákveðin brot eru útilokaðir frá ákveðnum störfum en meta skuli aðra og því gengur ekki að hafa ákveðna reglu heilt yfir fyrir alla.
 
 
Því viljum við beina því til ykkar að það verði háð mati hverju sinni hvernig brot sé og þá hvort það sé þess eðlis að ekki sé hægt að ráða dómþola til starfa. Við gerum ekki aðrar athugasemdir við auglýsinguna núna en vonum að í framtíðinni verði þetta skilyrði orðað öðruvísi eins og t.d: hreint sakavottorð í samræmi við lög og reglur, en það er svipað og sum sveitarfélög auglýsa. Aðalmálið er þó að fara eftir því ákvæði að það sé metið í hvert skipti.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *