Njóta fangar réttinda eða ívilnana?
Fangelsismál eru líklega ekki efst á vinsældarlista landsmanna en eflaust bæði áhyggjuefni og hagsmunamál. Fangelsismál eru reglulega í fréttum og ýmsir kannast við vímuefnaneyslu í fangelsum, langa boðunarlista, framkvæmdir á Litla-Hrauni, átök í fangelsum, skýrslu stýrihóps, bataleiðir og ýmislegt annað misblessað. Líklega eru það þó engar ýkjur að segja að fáir þekkja sjálft fangelsiskerfið, réttindi fanga og þau sjónarmið sem ráða ferðinni við fullnustu refsinga.
Tilgangurinn nú er að fjalla um umdeildar lagareglur og sjónarmið fangelsisyfirvalda þegar kemur að afstöðu þeirra til réttinda fanga. Rök verða færð fyrir því að lögin séu að mörgu leyti handahófskennd og rökstuðningur að baki ákvörðunum byggður á sérkennilegri afstöðu til mannréttinda borgara. Skýringin helgast af þeirri áráttu fangelsisyfirvalda að endurtaka í sífellu að það sé meginregla að refsing skuli afplánuð að fullu í fangelsi. Því séu reglur sem kveði á um annað undantekningarreglur sem skýrðar séu þröngt og komi aðeins skoðunar í vissum tilvikum og þá aðeins þegar sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Langflestar ákvarðanir í fangelsiskerfinu styðjast við þessa nálgun fangelsisyfirvalda þrátt fyrir að yfirvöld sjálf hafi sýnt fram á það að túlkun þeirra sér röng.
Að síendurteknu og gefnu tilefni er nú ætlunin að fjalla um réttindi fanga út frá grundvallarreglum stjórnarskrárinnar og lögum um fullnustu refsinga. Greininni er ætlað að gagnrýna lögin sjálf og stjórnvöld fangelsismála fyrir rökstuðning að baki ákvörðunum sínum. Líklega eru fangelsismál ekki eini málaflokkurinn sem þarfnast gagnrýni en hann er góð byrjun það sem fangavist varðar augljósa skerðingu á mikilvægustu réttindum manna.
Í umfjölluninni verður rætt um reynslulausn vegna þess hversu oft og ítrekað sami rökstuðningurinn birtist í synjunum fangelsisyfirvalda og þá um leið vegna hinn umdeildu lagareglna sem um fyrirbærið gilda.
Grundvallarreglurnar
Stjórnarskrá Íslendinga er nokkurs konar þjóðsöngur landsmanna. Hún fjallar um sameiginleg grundvallargildi lítils lýðveldis sem gefur fyrirheit um að allir borgar séu jafnir og skuli njóta mannréttinda. Stjórnarskránni er ætlað það lykilhlutverk að vernda þessi grundvallarréttindi allra borgar gagnvart ríkisvaldinu. Hún er því öllum lögum æðri og fælir frá hvers kyns fyrirmæli sem brjóta gegn henni. Skylda hvílir á ríkisvaldinu að tryggja borgurum að lög um réttindi og skyldur séu sett og túlkuð í samræmi við grundvallargildin. Aðeins í algjörum undantekningartilvikum má víkja frá ýtrustu kröfum stjórnarskrárinnar og þá þegar sannanlegir almannahagsmunir eru augljóslega mikilvægari en réttindi einstaks borgara. Slíkar aðstæður geta meðal annars komið upp á styrjaldartímum.
Hver er munurinn á réttindum og ívilnun?
Stjórnarskráin færir öllum borgurum jöfn réttindi. Ívilnun er annars konar lagaúrræði sem byggist á svipuðum sjónarmiðum. Þessum hugtökum er stundum ruglað saman en vísbendingar um það finnast bæði í verkum ríkisvalds og dómstóla. Munurinn skýrist einkum í því að réttindum fylgir skylda en ívilnun er háð leyfi. Ívilnun er nokkurs konar verkfæri sem ríkisvaldið notar til að efna skyldu sínar samkvæmt stjórnarskránni. Hún getur verið skilyrt og háð einstaklingsbundnum aðstæðum en stendur ekki ein og sér í boði fyrir alla borgara. Sem dæmi mætti segja að blindir njóti þeirrar ívilnunar að nota hjálparhunda þrátt fyrir að lög skorti fyrir hundahaldi. Ástæðan er sú að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar er ríkisvaldinu skylt að tryggja sjúkum og öryrkjum aðstoð. Slíkar ívilnanir eru meðal annars í skattalögum. Í lögum um fullnustu refsinga mætti líta á náðun sem ívilnun en að örðu leyti finnast þær ekki í lögunum þrátt fyrir að yfirvöld og jafnvel dómstólar virðast ranglega hafa litið svo á.
Hvernig breyta stjórnvöld réttindum í ívilnun?
Því má vel halda fram að íslenskum stjórnvöldum sé tamt að tryggja vald sitt yfir borgurum með því að dulbúa réttindi þeirra sem ívilnanir. Þetta á víða við en er sérstaklega áberandi í fangelsiskerfinu og löggjöf þess. Aðferðin er sáraeinföld og felst í að nota orðið „heimild“ í stað orðsins „skylda“. Með þessu móti er hlutunum snúið við og fangi þarf að færa góð rök fyrir því að hann eigi að njóta réttinda í stað þess að fangelsisyfirvöld rökstyðji hvers vegna hann eigi ekki að njóta þeirra.
Reynslulausn
Reynslulausn, dagsleyfi, nám- vinna og starfsþjálfun fyrir utan fangelsi o.fl. eru á meðal þeirra réttinda fanga sem tengjast nálægð við frjálsa samfélagið. Svipuð sjónarmið eiga við í öllum tilvikum en til einföldunar verðu hér fjallað um reynslulausn sem að mínu viti er umdeildasta úrræðið en jafnframt einfaldast að draga fram skiljanlega umfjöllun um það.
Lög um fullnustu refsinga er mjög íþyngjandi löggjöf sem hverfist um frelsissviptingu og eru því í beinni andstöðu við 67. gr. stjórnarskrárinnar. Lögin virka um leið á nær öll önnur mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þar á meðal mælir 28. gr. laganna fyrir um heimild fyrir ríkisvaldið til að gera undantekningu frá 68. gr. stjórnarskrárinnar um varnir gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð.
Í VIII. kafla laga um fullnustu refsinga er fjallað um reynslulausn. Þar segir að Fangelsismálstofnun geti ákveðið að veita reynslulausn og síðar rakið hvenær stofnunin geti heimilað slíkt. Það má í raun segja að 80. gr. laganna um skilyrði reynslulausnar og 82. gr. um skilorðsrof gefi tilefni til sérstakrar og sundurliðaðrar umfjöllunar en samandregið koma þar fram þrjár séríslenskar lagareglur sem eru í meira lagi vafasamar:
- Í fyrsta lagi mælir 2. – 4. og 6. mgr. 80. gr. fyrir um mismunun fanga varðandi reynslulausn á grundvelli brotaflokka. Því mætti lýsa sem almennu broti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár.
- Í öðru lagi lýsir 5. mgr. 80. gr. handahófskenndri aðferð sem sem tengir saman tilhögun fangavistar við valdsvið lögreglu sem brýtur gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár um réttinn til að vera talinn saklaus uns sekt sé sönnuð.
- Í þriðja lagi mælir 2. mgr. 82. gr. lagannar fyrir um léttvæga hjáleið frá rétti 70. gr. stjórnarskrár til réttlátrar málsmeðferðir og réttinda borgara að vera talinn saklaus uns sekt sé sönnuð.
Lög um fullnustu refsinga mæla fyrir um heimild fyrir fangelsisyfirvöld til veitingar reynslulausnar. Lögin tala ekki um skyldu. Á þessum forsendum hafa yfirvöld nálgast öll réttindi fanga og rökstuðningur sem tengist reynslulausn er á þessa leiða:
- Reynslulausn er ívilnun sem feli í sér skilyrta eftirgjöf refsingar.
- Reglur um reynslulausn eru undantekningarreglur sem sæta ströngum skilyrðum og koma aðeins til greina við mjög sérstakar aðstæður.
- Meginreglan er sú að refsingu skuli afplána að fullu í fangelsi.
Varðandi meginregluna um afplánun að fullu í fangelsi er rétt að benda á að hugtökin „afplánun“ og „fullnusta“ tákna ekki hið sama í skilningi laga um fullnustu refsinga. Nálgun fangelsisyfirvalda kann að byggja á ruglingi með hugtökin en það eitt og sér skýrir þó ekki meginregluhugmyndina. Fullnusta í fangelsi tilheyrir afplánunarhugtakinu en reynslulaus er einn þeirra þátta sem markar lok afplánunar.
Áður hefur verið fjallað um þau umdeildu rök yfirvalda að reynslulausn sé ívilnun og óþarfi að ræða það hér. Rétt er að fjalla ítarlega um þetta í tengslum við 5. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga varðandi úrskurðarmál í kjölfar meintra rofa á skilyrðum reynslulausnar.
Er reglur um reynslulausn undantekningareglur?
Þegar fangelsisyfirvöld synja föngum um reynslulausn er nær undantekningarlaust byggt á eftirfarandi rökstuðningi:
Við [mat á veitingu reynslulausnar]þarf að hafa í huga að reglur um reynslulausn eru undantekningarreglur sem sæta ströngum skilyrðum og eru undanþágur einungis veittar í alveg sérstökum tilvikum.
Þessi skýring á reynslulausnarreglum sem undantekningu byggir líklega á sjónarmiðinu um að refsingu skuli afplána að fullu í fangelsi sem meginreglu. Að ofan voru sett fram röksemdir sem mæla gegn því að slík afplánun sé meginregla. Í eðli sínu byggja reglur um reynslulausn á meginreglu stjórnarskrár og skulu skýrðar með hliðsjón af henni frekar en sem þröngar undantekningar frá frelsissviptingu.
Skýring fangelsisyfirvalda á reynslulausnar sem undantekningar er í algjöru ósamræmi við framkvæmd og tölulegar staðreyndir. Samkvæmt ársskýrslum Fangelsismálastofnunar, um áralanga framkvæmd, er raunveruleikinn sá að um 75% fanga er veitt reynslulausn en 25% ekki. Reglur um reynslulausn eru því ekki aðeins meginreglur í eðli sínu heldur einnig í framkvæmd. Engu að síður birtist andstæður rökstuðningur fangelsisyfirvalda enn og ávallt sem meginástæða synjunar.
Meginreglan eða undantekningin um afplánun að fullu í fangelsi
Hvergi er að finna ákvæði í íslenskum lögum sem vísa til meginreglu stjórnvalda um að refsing skuli afplánuð að fullu í fangelsi. Hér er því um að ræða álit eða skoðun fangelsisyfirvalda. Um þetta gilda lög um fullnustu refsinga sem í heild sinni lýsa hvernig fullnusta skal fara fram, innan sem utan fangelsa. Þar segir að fullnusta geti farið fram með ýmsum hætti án þess þó að skilgreina meginreglur, undantekningar eða ívilnanir. Rök fangelsisyfirvalda veikjast mjög þegar litið er til framkvæmdarinnar. Samkvæmt árskýrslu Fangelsismálastofnunar hafa einungis um 25% fanga afplánað refsingu sína að fullu á undanförnum árum.
Næst á dagskrá
Sú er ætlunin að vekja áhuga fólks um réttindi borgara almennt sem svo auðveldlega má íhuga í samanburði við réttindi fanga. Fangelsislöggjöfin, í eðli sínu, felur í sér afgerandi frávik frá flestum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og um leið ákjósanlegan völl til rannsóknar á sjónarmiðum stjórnvald.
Í framhaldi þessarar greinar er ætlunin að fjalla um tvö lagaákvæði í lögum um fullnustu refsinga sem eru líklega í besta falli skrítin:
Annars vegar 5. mgr. 80. gr. sem segir:
„Fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, verður að jafnaði ekki veitt reynslulausn, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur á því ekki af völdum fangans.“
Hins vegar 2. mgr. 82. gr. sem segir:
„Að kröfu ákæranda getur þó dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga[…]“.