Lögreglu og jafnvel almenningi boðið að stýra fangavist
Íslenskur karlmaður sem nú er vistaður í fangelsinu Litla-Hrauni hefði að öllu jöfnu átt að losna úr haldi fyrir rúmu hálfu ári, eða í byrjun maí. Afstaða, félag fanga, hefur unnið að máli mannsins í stjórnsýslunni en að sögn félagsins hafa fangelsisyfirvöld synjað manninum um reynslulausn vegna þess að lögregla sé með mál á hendur honum til rannsóknar.
Málið snýst um umdeilda og mjög vafasama lagareglu þ.e.a.s. 5. mgr. 80. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 þar sem segir: „Fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, verður að jafnaði ekki veitt reynslulausn, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur á því ekki af völdum fangans.“
Samkvæmt upplýsingum frá Afstöðu er um að ræða séríslenska reglu sem er með öllu óútskýrð. Sömu reglu er að finna víða í fangelsislöggjöfinni og þá til skerðingar á réttindum fanga. Notuð til að skerða réttindi fanga. Reglan er eins og skemmd í banana. Erfitt er að finna haldbæran rökstuðning fyrir reglunni, eða að benda á tengsl hennar við tilgang og markmið reynslulausnar eða laganna almennt. Hún laumaði sér inn í lögin árið 2005 í gegnum reglugerð frá árinu 1993 sem hafði fengið verulega útreið í áliti Umboðsmanns Alþingis frá 2000. Þá fellur hún ekki að niðurstöðum Mannréttindadómstóls Evrópu. Við lagasetninguna árið 2005 skaust hún inn í lagatextann án skýringa eða umræðu. Upp frá því hefur hún verið notuð óspart til að synja föngum um réttindi sín, en enginn hefur þó gert nothæfa tilraun til að rökstyðja hana. Slíkar tilraunir hafa fætt af sér rökleysu, enda ómögulegt að ímynda sér aðstæður þar sem hún falli í hópinn.
Eitt er augljóst og blasir við. Regluna má misnota. Tilvist hennar ein og sér býður hættunni heim. Lögreglan getur, hvað sem hver segir, einfaldlega skráð mál í kerfið með þeim afleiðingum að „tiltekinn“ einstaklingur fái ekki reynslulausn. Og reglan veitir jafnvel almennum borgurum tækifæri til að halda mönnum í fangelsi, með því að leggja fram skipulagða kæru á hendur fanga. Hér er ekki verið að segja að lögregla misfari með það vald sem lagareglan veitir henni, eða að almennur borgari taki upp á slíku. En leiðin er hins vegar fær og það eitt ætti að duga til að afskrifa hana. Allt hugsandi fólk ætti því að sjá að umrædd regla er röng. Hún hefur engan sjáanlegan tilgang og er miklu líklegri til að valda skaða en gagni. Það eru einmitt svona reglur sem valda því að almenningur missi trú á réttarkerfið.
Gögn málsins, sem send hafa verið til dómsmálaráðuneytisins, gefa vísbendingu um að lögregla hafi í raun farið frjálslega í kringum lagaboð við rannsókn máls þessa manns.
Ráðuneytið hefur undir höndum gögn frá barnsmóður mannsins sem kveðst hafa verið beitt þvingunum af lögreglufulltrúa við skýrslutöku. Barnsmóðirin ber við að lögreglufulltrúi hafi hótað henni ef framburður hennar væri ekki viðunandi og staðið við hótunina í beinu framhaldi. Í upphafi í máli fangans hafi lögregla reynt að hafa áhrif á það hver yrði verjandi mannsins. Þannig hafi lögregla neitað að verða við beiðni mannsins um verjanda, heldur sjálf ákveðið hver skyldi verja hann. Það er reyndar nokkuð sem stöðugt kemur á borð Afstöðu, en lögreglu er frekar tamt að velja sakborningum verjendur. Það er tekið fram að ekki er verið að gagnrýna viðkomandi lögmenn, heldur bent á að val rannsakanda á verjanda andstæðings síns er fallið til efasemda.
Í ljósi þessa máls og annarra hefur Afstaða bent á að íslensk fangelsislöggjöf byggi á öðrum forsendum en löggjöf þjóðanna í kringum okkur. Hvað eftir annað eru synjanir um reynslulausn rökstuddar með óskiljanlegum hætti og jafnvel rökleysum. Einn algengasti rökstuðningur yfirvalda, og grundvallarrök fyrir synjunum, er í hróplegri andstöðu við úrtölur sem eru birtar á vef Fangelsismálastofnunar.
Afstaða fer ekki ofan af því að víða í íslenskri fangelsislöggjöf eru ómálefnalegar lagareglur sem standast hvorki stjórnarskrá né markmið laganna sjálfra. Þetta er einnig sannleikur um nálgun fangelsisyfirvalda og lögskýringar þar á bæ. Telur félagið að skýringin sé sú að heildarmyndin snúi öfugt. Í stað þess að fjalla um skyldu stjórnvalda til að veita réttindi, er talað um heimild. Íslenskur fangi þarf að rökstyðja það hvers vegna yfirvöld eigi að veita honum heimild til reynslulausnar. Sænskum stjórnvöldum er skylt að veita fanga reynslulausn og þurfa að rökstyðja það sérstaklega ef hann á ekki að hljóta hana.
Reyndar telur Afstaða að mjög víða í löggjöf landsins séu ómálefnalegar lagareglur um réttindi manna, sem fæðast í þeirri hugmynd að lög séu skrifuð fyrir stjórnvöld til að útdeila réttindum, en ekki fyrir borgarana til verndar réttindum þeirra.