Guðmundur Ingi Þóroddsson

Könnum afstöðu íbúa við lónið

Haustið 2020 var tekin sú ákvörðun að tæma Árbæjarlón til framtíðar og kom það mörgum verulega á óvart, ekki síst íbúum í kringum lónið. Sjálfur ólst ég upp í grennd við lónið og vakti því ákvörðunin upp heitar tilfinningar hjá mér. Ég taldi að kolröng ákvörðun hefði verið tekin og að hætta ætti við þessa fyrirætlan íbúum enda samræmdist það ekki deiluskipulagi borgarinnar þegar lónið var tæmt á sínum tíma. Enn stendur styr um lónið og nýverið var lögð fram kæra til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar vegna umræddrar framkvæmdar. Hún byggir að miklu leyti á því að ekkert samráð hafi verið haft við íbúa.

Meirihlutinn í Reykjavík hefur lyft grettistaki þegar kemur að samráði við íbúa borgarinnar í tengslum við framkvæmdir sem ráðast skal í. En það verður að viðurkennast að í þessu máli, sem var á forræði Orkuveitu Reykjavíkur, skorti verulega upp á upplýsingaflæði. Það meira að segja viðurkenndi formaður íbúaráðs Árbæjar og formaður stýrihóps um Elliðaárdal. Þegar kemur að framkvæmdum í borginni þá verður að tryggja virkt samtal, gott upplýsingaflæði og fá öll sjónarmið upp á borðið. Til þess að borgarbúar geti treyst stjórnvöldum verður að vanda vel til verka.

Að mínu mati er enn spurningum ósvarað þegar kemur að Árbæjarlóni og margir íbúar í sárum. Ég hvet Orkuveitu Reykjavíkur til þess að endurskoða afstöðu sína, gera könnun meðal íbúa og gefa þeim kost á að segja sína skoðun á nærumhverfi sínu. Þannig má ná sátt um málið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *