Guðmundur Ingi Þóroddsson

Hver leynist undir brúnni?

Ungur maður í blóma lífsins. Jæja, alla vega útlitslega séð. Ljósmyndin var tekin árið 2004 af Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi deildarstjóra á Litla Hrauni, vegna þess að gefið var út sérstakt vegabréf þess efnis að ég mætti vera frjáls maður í fjórtán klukkustundir hverja þrjátíu daga sem ég væri í afplánun. Þá hafði ég afplánað 1/3 hluta afplánunar eða 4 ár. Slík umbunun nefndist dagsleyfi og eru til þess gerð að dómþolar styrki fjölskyldubönd, þannig að þeir bíði eitthvað þegar þeir ljúka við greiðslu sína til samfélagsins. Þetta er afskaplega mikilvægur þáttur í afplánun en engu að síður veita íslensk stjórnvöld fæst leyfi af öllum löndum Evrópu. Það er önnur saga en engu að síður mikilvæg að halda til haga.

Á meðfylgjandi ljósmynd er þrítugur maður sem var dæmdur til að afplána 12 ára fangelsisvist fyrir innflutning á vímuefnum. Ég myndi aldrei gera lítið úr mínum þætti i málinu en líklega yrði dómurinn tvö til þrjú ár í dag fyrir sama magn. Þá er ég fullviss um að ungi maðurinn á myndinni hefði farið aðra leið í afplánun sinni í fangelsiskerfi sem hæfir samfélagi nútímans. Ég tel víst að hann hefði ekki sleppt spilum sínum heldur haldið á þeim og leikið rétt úr.

Frá aldamótum hefur margt breyst en engu að síður er samfélagið enn að dæma fólk til langrar fangelsisvistunar fyrir ofbeldislausa dóma og það er mín bjargfasta skoðun að ef dæma á fólk til þess að dvelja um langt árabil þá verði að gera allt til þess að menntun, starfsþjálfun og styrking fjölskyldubanda sé höfði í fyrirrúmi þannig að dómþolar komi með tól og tæki úr afplánun en ekki eingöngu níðþungan bagga.

Eftir að hafa átt i góðum samskiptum við Fangelsismálastofnun, undanfarin ár, eftir að hafa í samvinnu við forstöðumann áfangaheimilisins Verndar skilað skýrslu um hvað mætti betur fara á Litla-Hrauni og eftir að hafa barist fyrir bata í fangelsiskerfinu þá er heilu steypukeri sturtað yfir skoðanir okkar og málstaðinn. Stjórnvöld ákváðu að setja marga milljarða í að endurbæta Litla-Hraun! Og þessir milljarðar eru brú þar til nýtt fangelsi verður byggt. Vonandi þarf ekki að rifja upp sögu bygginga fangelsa á Íslandi fyrir nokkrum manni með sínum undanþágum ár eftir ár og eftir ár.

Eðlilegt viðhald og endurbætur eru eitt og ætti ekki að þurfa básúna um í fjölmiðlum. Við sem þekkjum til getum verið sammála um að endurbóta sé þörf og að um sé að ræða nauðsynlegar endurbætur sem hefði átt að vera búið að ráðast í fyrir mörgum árum. Ef það hefði verið eðlilegt viðhald á Litla-Hrauni þyrfti ekki að glenna sig framan í myndavélar og telja milljarðana á fingrum.

Þau lönd sem við berum okkur saman við (en getum þó ekki þar sem við erum áratugum á eftir þeim)  eru með endurhæfingarstefnu, þar eru opin úrræði í forgrunni vegna þess að þau eru framtíðin. Það að loka fólk í litlum klefum til lengri tíma er fortíðarhugsun sem þarf að eyða. Við eigum að læra af grannþjóðum okkar sem hafa sýnt það og sannað að þeir sem fara í gegnum opin úrræði eru ólíklegri til að hljóta að nýju fangelsisdóm, það er bara staðreynd. Það er þess vegna sem fangelsin í Noregi líta út fyrir Bandaríkjamönnum sem sumarbúðir.

Allir þeir sem hafa vit, þekkingu og reynslu á þessum annars gríðarlega áhugaverða málaflokki horfa til opinna fangelsa. Hér á landi þarf ekki annað en að horfa til reynslunnar á Kvíabryggju þar sem fyrrum vistmenn hringja jafnvel áratugum síðar og þakka fyrir sig. Við eigum ekki að halda í handónýtt bandarískt skapalón af ömurð sem framleiðir frekar glæpamenn en fækkar, fjölgar brotaþolum og fjölgar starfsgildum hjá lögreglu, í stétt lögmanna og dómara. Hver heilvita maður ætti að sjá í hendi sér að milljarðar af skattfé sem fara í það að taka niður turninn á Litla-Hrauni munu ekki koma betra fólki inn í samfélagið að nýju. Og umrædd brú verður visnuð ef ekki fallin þegar nýtt fangelsi rís.

Eftir að hafa rætt við nokkra verktaka sé ég ekki betur en að fýsilegt væri að jafna Litla-Hraun við jörðu og nota þessa milljarða til að reisa þrjú þúsund fermetra opið úrræði, því væri skipt niður í hluta fyrir almenna dómþola annars vegar og geðfatlaða dómþola hins vegar, sem því miður er enn verið að dæma í fangelsi þrátt fyrir að allir viti að þar ættu þeir ekki að vera. Í fangelsinu á Hólmsheiði er nefnilega nóg pláss fyrir þá sem taldir eru þurfa dvelja í lokuðu fangelsi.
Vissulega eru til mjög fínar myndir af stjórnmálamönnum sem heimsótt hafa Litla-Hraun en það vantar þá sem tilbúnir eru að skoða málin í kjölinn og aldrei virðist það gerast að dómsmálaráðherrar hafi áhuga á þessum málaflokki. Það dugir nefnilega ekki að setja lítinn plástur á beinbrot.

Rekstur opinna fangelsa er mun ódýrari en rekstur lokaðra. Í þeim opnu má vinna með svo miklu meiri endurhæfingu og bata að það skilar alltaf betri samfélagsþegnum út í lífið. Ég skora á ný stjórnvöld að hlusta á þá sem hafa raunverulega vit á málaflokknum, ekki okkur í Afstöðu heldur nágrannaríki okkar og hvað þau hafa gert í fangelsismálum. Norsk stjórnvöld hafa aðstoðað önnur ríki þegar kemur að því að taka upp endurhæfingar- og batastefnu og í Austur-Evrópu hefur Evrópusambandið styrkt ríki til að koma á slíkri stefnu.


Nefndir, starfshópar, starfnefndir og stýrihópar hafa ekkert gert nema þegið kaffi og bakkelsi. Það er kominn tími til að stjórnmálaflokkur rísi upp, skoði málið frá grunni, læri af reynslu annarra þjóða og gefi því fólki sem hrasar, missir sjónar af beinu brautinni eða hreinlega leiðist út í glæpi vegna aðstæðna. Ísland getur gefið tækifæri en á meðan það felst í milljarða framkvæmd við brú þá er ljóst að þeir sem þurfa á hjálp að halda munu halda sig undir brúnni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *