Guðmundur Ingi Þóroddsson

Hver er Guðmundur Ingi ?

Stutta svarið er Breiðhyltingur með lífsreynslu á við ansi marga. Ég kem til dyranna eins og ég er klæddur og tala enga tæpitungu. Að sama skapi ætlast ég til þess sama frá öðrum. Ég berst fyrir mannréttindum allra, hef stutt skaðaminnkunarstefnu og starfa daglega með skjólstæðingum sem þurfa mikla tengingu við þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og velferðarsvið borgarinnar. Ég hef unnið á velferðarsviði Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra og gistiskýla. Ég hef sinnt trúnaðarstörfum fyrir Rauða krossinn, en þar er ég í fagráði í ákveðnu úrræði og verið sjálfboðaliði fyrir Frú Ragnheiði. En nóg af því í bili.

Frá unga aldri hef ég að miklu leyti unnið sjálfstætt. Ég hef rekið nokkur fyrirtæki í gegnum tíðina, bæði hér á landi og erlendis, og vinn vel undir álagi og legg mig allan fram við þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur. Ég þekki reglugerðarfrumskóg stjórnsýslunnar eins og handarbakið á mér, er mjög kunnugur leyfismálum og þeim ferlum sem ganga þarf í gegnum í fyrirtækjarekstri í borginni.

Þá ber að nefna að ég hef verið formaður Afstöðu, félags fanga, í átta ár og hafði ætlað mér að halda því áfram á meðan ég nýt trausts félagsmanna. Sem formaður hef ég skipulagt allt starf félagsins, aflað sjálfboðaliða og oft þurft að beita lausnamiðaðri hugsun og sveigjanleika, til dæmis þannig að endar nái saman hjá samtökunum. Í starfi mínu fyrir félagið hef ég ritað fjölda greina í dagblöð og netmiðla, unnið umsagnir um frumvörp og greinargerðir ásamt því að aðstoða fanga við að reka sín mál hjá hinum ýmsu stofnunum og ráðuneytum.

Að mínu viti hef ég sýnt leiðtogahæfni, drifkraft og frumkvæði sem formaður og fyrirtækjaeigandi og vil í því sambandi vísa til verkefnis sem unnið var í MBA-námi við Háskóla Íslands árið 2021. Í verkefninu var fjallað um leiðtogahæfni og valdi fimm manna hópur að gera rannsókn um mig sem spannaði sautján blaðsíður. Þar segir meðal annars: „Guðmundur Ingi hefur allt frá árinu 2014 verið afkastamikill leiðtogi fanga sem kemur reglulega fram í fjölmiðlum auk þess að leggja mikinn kraft í önnur þau verkefni sem Afstaða vinnur að.“

Ásamt trúnaðarstörfum fyrir Rauða krossinn hef ég setið í nefnd félagsmálaráðherra um málefni fanga og var tilnefndur í nefnd heilbrigðisráðherra til að sinna ráðgjöf til stjórnvalda um vímuefnamálefni. Ég er í nefnd heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta. Ég er í forystu í málefnahópi Samfylkingarinnar um stjórnarfar, ríkisvald og mannréttindi auk þess að sinna teymisvinnu á vegum Afstöðu sem fundar með fagfólki frá ýmsum stofnunum og sveitarfélögum, ásamt innlendum og erlendum eftirlitsnefndum. Ég er formaður Rósarinnar- Landsfélagi jafnaðarmanna.

Ég útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands, stundaði BA-nám í spænsku (óklárað) við Háskóla Íslands og er núna í BA-námi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Ég bý með eiginmanni mínum Titu Ciprian Balea í Hólahverfinu í Breiðholti og höfum við verið í sambandi í fjórtán ár og í hjónabandi í níu ár. Tito er sem sagt sá sem heldur mér jarðtengdum og á skilið mikið hrós fyrir að gera mig að betri manni og ég er stöðugt að læra af honum.

Ef það er eitthvað sem þú vilt vita meira um mig þá máttu endilega hafa samband og ég mun reyna að svara eins hratt og ég get til baka.  

Kærar þakkir og bestu kveðjur, Guðmundur Ingi Þóroddsso

Play Video