
Hver er Guðmundur Ingi ?
Ég heiti Guðmundur Ingi Þóroddsson, 50 ára Breiðhyltingur, og bý í Hólahverfinu með eiginmanni mínum, Titu Ciprian Balea, sem er frá Rúmeníu. Við höfum verið saman í 17 ár og giftir í 12 ár. Tito hefur verið ómetanlegur stuðningur í lífi mínu, bæði í daglegu lífi og í baráttu minni fyrir réttindum þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hann hefur einnig gert mig að betri manni með sinni styrku jarðtengingu og ég læri stöðugt af honum.
Ég hef helgað lífi mínu baráttunni fyrir mannréttindum og réttlátu samfélagi. Undanfarin ár hef ég verið formaður Afstöðu, félagasamtaka sem vinna að réttindum fanga og þeirra sem glíma við jaðarsetningu í íslensku samfélagi. Ég hef staðið í fremstu víglínu fyrir skaðaminnkunarstefnu og öðrum mikilvægum málefnum sem varða félagslega velferð. Í starfi mínu á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar hef ég beitt mér fyrir málefnum heimilislausra og tryggt að þeir fái stuðning og þjónustu sem þeir eiga rétt á.
Ég er einnig stoltur af því að hafa tekið þátt í fjölmörgum nefndum og ráðgjafahópum fyrir ríki og sveitarfélög. Sem formaður Afstöðu hef ég skipulagt allt starf félagsins, aflað sjálfboðaliða og unnið náið með stjórnvöldum, fangelsisyfirvöldum og félagsþjónustu til að bæta stöðu jaðarsettra hópa. Ég sit einnig í fagráði Rauða krossins um aðstoð eftir afplánun og starfað sem sjálfboðaliði fyrir Frú Ragnheiði.
Starfsreynsla með Eflingu og Gildi
Ég hef einnig sinnt trúnaðarstörfum fyrir Eflingu stéttarfélag, þar sem ég er í trúnaðarráði félagsins, auk þess að sitja í samninganefnd. Þar hef ég lagt áherslu á að berjast fyrir réttindum láglaunafólks og bættum kjörum. Ég er einnig í fulltrúaráði lífeyrissjóðsins Gildis, þar sem ég tek þátt í að tryggja öryggi og réttindi sjóðsfélaga til framtíðar. Ég hef sótt þing ASÍ fyrir hönd Eflingar.
Nefndarstörf og verkefni:
Ég hef verið þátttakandi í fjölmörgum nefndum og starfshópum, þar á meðal:
- Starfshópur um stefnu stjórnvalda í skaðaminnkun
- Starfshópur um afglæpavæðingu neysluskammta
- Starfshópur um stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnamálum
- Fyrirhugaður starfshópur um heildarendurskoðun á lögum um fullnustu refsinga
- Starfshópur um bætta stöðu fanga eftir afplánun
- Óformlegur starfshópur ríkislögreglustjóra um EXIT-prógram fyrir þá sem vilja hætta í glæpum
- Ráðgjöf fyrir borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins vegna erlendra fanga
- Fulltrúi í fagráði Rauða krossins um aðstoð við fanga eftir afplánun
- Vinnuhópar í heilbrigðisráðuneytinu um meðferðarmál og geðheilbrigðismál fanga
- Vinnuhópar um umbunakerfi og deildarskiptingar í fangelsum
- Vinnufundir og samskipti við félagsráðgjafa Reykjavíkurborgar
- Fyrirlestrar og fræðsla fyrir ráðuneyti, fangavarðaskólann, lögreglufræði Háskólans á Akureyri, félagsráðgjöf Háskóla Íslands og lögfræði Háskólans á Akureyri
- Virkt samráð og kynningar hjá erlendum fangelsisyfirvöldum og systursamtökum Afstöðu erlendis
Menntun
Ég er nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, þar sem ég legg áherslu á að dýpka skilning minn á félagslegum kerfum og hvernig við getum betur þjónað þeim sem mest þurfa á að halda. Ég útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands og hef stundað BA-nám í spænsku við Háskóla Íslands.
Af hverju ég býð mig fram?
Ég hef alltaf trúað því að stjórnmál eigi að snúast um að bæta líf allra í samfélaginu, sérstaklega þeirra sem hafa ekki haft rödd í kerfinu. Það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að bjóða mig fram á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar.
Ég trúi því að Samfylkingin sé sá vettvangur sem getur skilað raunverulegum breytingum fyrir þá hópa sem ég hef barist fyrir – þá sem búa við jaðarsetningu, minnihlutahópa, láglaunafólk og alla sem standa höllum fæti í samfélaginu. Ég vil sjá samfélag þar sem allir njóta jafnra tækifæra, hafa þak yfir höfuðið og fá þá þjónustu sem þeir eiga rétt á, óháð bakgrunni eða aðstæðum.
Með reynslu minni úr félagslegri ráðgjöf, nefndarstörfum og sjálfboðaliðastarfi tel ég mig hafa innsýnina, leiðtogahæfnina og drifkraftinn til að vera tenging við þá hópa sem þurfa á breytingum að halda. Ég er staðráðinn í því að vinna að raunverulegum umbótum og skapa betra samfélag fyrir alla.
Ég hlakka til að vinna með ykkur öllum að þessari baráttu á næstu vikum.
Kærar þakkir og bestu kveðjur,
Guðmundur Ingi Þóroddsson