Guðmundur Ingi Þóroddsson

Framboðsyfirlýsing í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2022

Ágætu félagar og vinir!

Undanfarin ár hef ég tekið þátt í grasrótarstarfi Samfylkingarinnar og hef verið félagi frá árinu 2015. Ég hef verið í forystusveit málefnahóps og er núverandi formaður Rósarinnar, landsfélags jafnaðarmanna. Ég er formaður Afstöðu – Til ábyrgðar, nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og starfsmaður á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að reyna fyrir mér í stjórnmálum og valdi til þess Samfylkinguna. Ég valdi hana því ég trúi á flokkinn og það sem hann stendur fyrir. Eftir fjölmarga fundi í tvo áratugi með stjórnmálafólki og nefndum úr hinum ýmsu flokkum fyrir félagið sem ég starfa fyrir, gat ég með góðri samvisku valið Samfylkinguna. Þetta er flokkurinn sem ég trúi að muni geta breytt þeim málefnum sem ég stend fyrir. Ég trúi því að flokkurinn vilji að allir hafi þak yfir höfuðið, ég trúi að flokkurinn vilji jöfn tækifæri fyrir alla, líka þá hópa sem ég berst fyrir. En það vantar eitthvað upp á og ekki hefur verið nægjanleg þekking og tenging við þessa hópa. Þess vegna er ég að standa í þessu.

Nú standa yfir miklar breytingar á forystu flokksins og því er þetta kjörið tækifæri til þess að ganga lengra og gera virkilega breytingu, gera þá breytingu að ná til fólksins sem við erum að berjast fyrir. Það er það sem hefur vantað upp á, að láglaunafólk, minnihlutahópar og hin jaðarsettu fái sína fulltrúa. Þar kem ég inn og ég ætla mér að vera tenging við þá hópa.

En það er ekki bara tengingin við þessa hópa sem skiptir máli, heldur þarf innra starf flokksins að virka og vera virkt. Það er ekkert launungarmál að það þarf að gera miklu betur og það þarf að koma skipulagi á starfið fyrir allan flokkinn um allt land. Kosningaáætlun, herferð og fjármögnun á að vera tilbúin mörgum mánuðum fyrir kosningar. Það gengur ekki upp að verið sé að vinna í fjármögnun í miðri kosningabaráttu, korteri fyrir kosningar. Þessu vil ég breyta og gera það í samvinnu með fulltrúaráðunum og í starfi framkvæmdastjórnar.

Ég legg áherslu á sáttarstjórnmál og að jafnaðarstefnan verði í háveigum höfð í starfi flokksins. Þá er lykilatriði að allir séu velkomnir í flokkinn og geti fundið sig í þeim félögum sem í boði eru eða málefnahópum. Ef fólk finnur sig ekki þá bara stofnar það bara ný félög innan flokksins og starfar í gegnum þau. Aðalatriðið er að fólk geti unnið saman að grunnhugmyndum jafnaðarstefnunnar, því það þurfa ekki allir að vera sammála um allt ef grunnurinn er sá sami. Við eigum að bjóða alla velkomna að starfa með okkur, opna flokkinn, vera bjartsýn, umburðarlynd og án fordóma.

Ég hef því ákveðið að bjóða mig fram til setu í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar á landsfundinum þessa helgi og leita eftir þínum stuðningi til þess.

Flestir þekkja stöðu mína í málefnum jaðarsettra og minnihlutahópa en auk þess hef ég þó nokkra reynslu af smærri fyrirtækjum og úthverfum borgarinnar enda Breiðhyltingur nú, uppalinn í Árbænum og Fylkismaður. 

Ég hlakka til að hitta ykkur öll um helgina á vonandi frábærum landsfundi. Áfram XS! 

Bestu kveðjur,

Guðmundur Ingi Þóroddsson