Guðmundur Ingi Þóroddsson

Framboðsyfirlýsingvegna uppstillingar á lista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningar 2024

Kæru félagar og vinir,

Ég heiti Guðmundur Ingi Þóroddsson, 50 ára Reykvíkingur, búsettur í Breiðholti með eiginmanni mínum, Titu Ciprian Balea, sem er frá Rúmeníu. Við höfum búið saman í bráðum 17 ár, giftir í 12 ár, og í sameiningu höfum við byggt upp líf sem sameinar margbreytileika og fjölmenningu. Á mínum yngri árum var ég virkur í skátahreyfingunni og Björgunarsveitunum, og ég hef í gegnum árin sýnt fram á frumkvæði og dugnað með því að stofna öryggisþjónustu, veitingastaði og vinna sem yfirmaður innra eftirlits. Ég hef ávallt lagt áherslu á sjálfstæði, elju og seiglu í störfum mínum, en einnig byggt á trausti samstarfsfólksins, sem hefur verið lykillinn að mínum árangri.

Á síðustu árum hef ég fengið dýrmæta reynslu í að berjast fyrir réttindum jaðarsettra hópa í gegnum mitt starf sem formaður Afstöðu – Til ábyrgðar, félagasamtaka sem vinna fyrir réttindi fanga og þeirra sem glíma við jaðarsetningu í samfélaginu. Við höfum náð markverðum árangri, þrátt fyrir að það hafi oft verið á brattann að sækja. Þessi reynsla hefur sýnt mér að breytingar eru mögulegar, ef rétt er haldið á spöðunum.

Ég hef verið virkur félagi í Samfylkingunni síðan 2015, þar sem ég hef tekið þátt í að móta stefnu flokksins í ýmsum málefnum. Sem núverandi formaður Rósarinnar, landsfélags jafnaðarmanna, hef ég lagt mikla áherslu á jafnaðarstefnu og mikilvægi sáttarstjórnmála. Ég er einnig nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, starfsmaður Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra sem og í sérverkefnum, og hef verið virkur í félagsmálum í gegnum trúnaðarstörf hjá Eflingu, Gildi og ýmsum starfshópum tengdum samfélagslegri umbótastarfsemi.

Nefndarstörf og ráðgjafarhlutverk:

Ég hef verið fulltrúi í fjölmörgum starfshópum og ráðgjafaráðum fyrir stjórnvöld og félagasamtök. Meðal þeirra eru:

  • Starfshópur um stefnu stjórnvalda í skaðaminnkun
  • Starfshópur um afglæpavæðingu neysluskammta
  • Starfshópur um stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnamálum
  • Fyrirhugaður starfshópur um heildarendurskoðun á lögum um fullnustu refsinga
  • Starfshópur um bætta stöðu fanga eftir afplánun
  • Óformlegur starfshópur ríkislögreglustjóra um EXIT-prógram fyrir þá sem vilja hætta í glæpum
  • Ráðgjöf og fyrirlestrar fyrir borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins vegna erlendra fanga og íslenskra í erlendum fangelsum
  • Fulltrúi í fagráði Rauða krossins í Aðstoð eftir afplánun
  • Vinnuhópar í heilbrigðisráðuneytinu um meðferðarmál og geðheilsumál fanga
  • Vinnuhópar um umbunakerfi og deildarskiptingar í fangelsum
  • Vinnufundir og samskipti við félagsráðgjafa Reykjavíkurborgar
  • Fyrirlestrar og fræðsla fyrir ráðuneyti, fangavarðaskólann, lögreglufræði Háskólans á Akureyri, félagsráðgjöf Háskóla Íslands og lögfræði Háskólans á Akureyri
  • Virkt samráð og kynningar hjá erlendum fangelsisyfirvöldum og systursamtökum Afstöðu erlendis

Af hverju ég býð mig fram?

Ég hef ákveðið að stíga inn í stjórnmál því ég trúi á Samfylkinguna sem afl til breytinga. Með margra ára reynslu af grasrótarstarfi, fundum með stjórnmálafólki úr öllum áttum, og sem talsmaður þeirra sem búa við jaðarsetningu, tel ég að flokkurinn hafi tækifæri til að bæta verulega á stöðu minnihlutahópa, láglaunafólks og þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Ég vil vera þessi tenging við þá hópa, og hjálpa Samfylkingunni að móta stefnu sem nær raunverulega til þeirra.

Þegar ég horfi til framtíðar sé ég flokk sem er opinn, bjartsýnn og laus við fordóma. Við þurfum að tryggja að allir fái jöfn tækifæri, þak yfir höfuðið og réttláta þjónustu – líka þeir sem hafa áður verið sniðgengnir. Ég trúi því að Samfylkingin sé réttur vettvangur til þess að skapa þessa breytingu.

Ég býð mig fram til þess að verða fulltrúi þessara hópa á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar 2024 og óska eftir stuðningi ykkar til þess að gera það að veruleika. Ekkert prófkjör verður og því kannski lítið hægt að gera nema vona að uppstillingarnefnd finni fyrir stuðningnum frá ykkur. Ég hlakka til að vinna með ykkur öllum að sameiginlegri baráttu okkar á komandi vikum.

Áfram XS!

Bestu kveðjur,
Guðmundur Ingi Þóroddsson