Guðmundur Ingi Þóroddsson

Fangar með framheilaskaða

Ég er í hálfgerðu áfalli eftir að hafa horft á fréttaskýringarþáttinn Kveik á RÚV í kvöld þar sem fjallað var um framheilaskaða. Samhliða því að vera í áfalli er ég hryggur og reiður út í kerfið okkar og hvernig farið er með fólk í samfélagi sem hreykir sér af mannréttindum. Veikir einstaklingar eru vistaðir í fangelsum landsins, í einangrun og jafnvel færðir á svonefndan öryggisgang vegna hegðunar og þar mega þeir dúsa mánuðum saman án þess að eiga í samneyti við aðra. Þetta er fólkið sem þarf að afplána lengur í fangelsum vegna þess að Fangelsismálastofnun getur hreinlega ekki sleppt þeim út því það eru engin úrræði þegar út í samfélagið er komið. Það tekur ekkert við.

Við hjá Afstöðu höfum gagnrýnt þetta í áraraðir en það er aldrei hlustað. Hvenær verður gerð heildstæð úttekt á starfsemi fangelsanna og starfsaðferðum þegar kemur að þessum hópi? Hvenær ætli stjórnvöld þurfi að semja um sanngirnisbætur þegar kemur að veikum föngum? Þroskaskertir og alvarlega geðfatlaðir einstaklingar hafa verið að meðaltali um fimm til sex á hverjum tíma í fangelsunum en svo koma þessar tölur fram. Fimmtíu prósent fanga eru með framheilaskaða! Þetta er grafalvarlegt mál og þarf að rannsaka strax, finna lausnir og það nú þegar.

Engu að síður má telja Fangelsismálastofnun það til tekna að þar eru flottir sérfræðingar sem ég bind miklar vonir við. Þar hefur verið bætt við einstaklega hæfu starfsfólki en aðeins örfá ár eru síðan starfsmenn þarf vissu hreinlega ekki út á hvað endurhæfing fanga gekk út á. Hins vegar mun ekkert breytast á meðan áfram er unnið eftir sömu gömlu og úreltu lögunum og starfsaðferðunum. Tími endurhæfingar er runninn upp og ég treysti á nýjan dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, til að taka í taumana og láta verkin tala. Komum veiku fólki á viðeigandi stofnanir og þær eru ekki fangelsi. Veikt fólk á ekki heima á bak við lás og slá.

“Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að einn af hverjum tíu verður fyrir alvarlegum heilaskaða um ævina. Erlendar rannsóknir benda til þess að í það minnsta helmingur fanga sé með heilaskaða. Í rannsókn á sænskum heilbrigðisgögnum og fangelsisskýrslum kom í ljós að fólk með heilaskaða var þrisvar sinnum líklegra til að fremja ofbeldisglæpi en aðrir og helmingi líklegra til þess en ósködduð systkini. Í flestum tilvikum má rekja þetta til framheilaskaða.”
​https://www.ruv.is/kveikur/heilaskadi/ 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *