Guðmundur Ingi Þóroddsson

Börn fanga fá ekki jólagjöf í ár Hr. ráðherra

Öllum er ljóst að fangar eru afgangsstærð í íslensku samfélagi en sama skapi bitnar sú staðreynd harkalega á saklausum börnum þeirra sem afplána dóma sína. Nú ríkir neyðarástand í fangelsum landsins og því miður er útlit fyrir að svo verði áfram.


Til þess að halda mannlegri reisn sinni fá fangar greidda dagpeninga og fæðisfé sem nýtast á til kaupa á mat og brýnustu nauðsynjum. Upphæð dagpeninga hefur haldist sú sama í fimmtán ár og nemur 3.100 krónum á viku. Og engin ástæða hefur þótt til að hækka fæðisféð heldur enda vita allir að verðlag á Íslandi hefur haldist svipað frá 2006. Ekki satt?


Nei. Sannleikurinn er sá að allar vörur hafa hækkað gríðarlega og nú er svo komið að fangar hafa hreinlega ekki efni á fæði, brýnustu hreinlætisvörum og hvað þá öðru smáræði sem þarf að kaupa, eins og jólagjafir handa börnum sí nú um. Öllum hækkunum hefur verið komið fyrir á herðum fanga og var byrðin þar næg fyrir. Fangar fá ekki desemberuppbót og langflestir þeirra sem afplána á Litla-Hrauni eru atvinnulausir og fá þar af leiðandi enga auka þóknun umfram dagpeninga og fæðisfé. Atvinnuleysið er ekki þeim að kenna. Það er enga vinnu að hafa. Þessir menn geta ekki glatt börn sín með smáræði um jólin.

Það ætti að vera forgangsverkefni nýs dómsmálaráðherra að fara í þetta mál og bjarga föngum um jólabónus ef ekki nema til þess að gleðja nokkur ung hjörtu sem fá þá gjöf frá fjarverandi foreldri. Við hjá Afstöðu viljum styrkja fjölskyldubönd, við viljum betra fólk út úr fangelsunum. Við skorum á dómsmálaráðherra að beita sér í þágu betrunar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *