Guðmundur Ingi Þóroddsson

Afplánun til lífstíðar?

Réttarvörslukerfið byggir á því að ef að einstaklingur fremur afbrot er hann dæmdur til viðeigandi refsingar af hálfu dómstóla. Dómstólar landsins eru skipaðir af lögfræðimenntuðum einstaklingum, sem hafa öll gögn málsins undir höndum og hlusta á vitnisburð gerandans, þolandans og vitna að hlutaðeigandi máli. Þegar afplánun afbrotamannsins er lokið hefur skuld hans við samfélagið verið greidd. Þannig virkar kerfið okkar – afbrot er framið og refsing er tekin út. En hvað svo?

Staðreyndin er sú að dómþolar koma út í samfélagið aftur og munu þurfa að hafa í sig og á og afla sér og fjölskyldum sínum lífsviðurværis. Það að hafa setið inni breytir ekki gangi lífsins og dómþolar þurfa að afla tekna, rétt eins og þeir sem hafa hreina sakaskrá. Eðli máls samkvæmt er rétt og eðlilegt að viss afbrot leiði til takmarkana á því að starfa við tiltekin störf, t.d. maður dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum vinni með börnum eða maður dæmdur fyrir fjársvik/fjárdrátt starfi við umsýslu með peninga annarra.

Nýverið hafa heyrst háværar raddir um að dómþolar eigi ekki að starfa við hin ýmsu störf á hinum frjálsa markaði eða hjá hinu opinbera. Þeir eiga helst ekki að starfa sem lögmenn, umönnunaraðilar, kennarar, læknar, hjúkrunarfræðingar, bílstjórar, leikarar eða í öðrum sýnilegum störfum. Þá er einnig ákjósanlegast að vinnuveitendur reki fólk ef upp kemst að viðkomandi hefur setið inni, án tillits til þess hvort viðkomandi sé reglusamur, hafi sinnt starfi sínu vel eða hafi gerst brotlegur við lög á ný.

Í rauninni eru afar fá störf sem þykir ásættanlegt að dómþolar inni af hendi. Spyrja má hvort þau störf sem eftir standa séu eitthvað verri en þau sem áður eru upptalin – hvers vegna er skárra að dæmdur einstaklingur afli tekna við að malbika götur borgarinnar heldur en við málflutning í dómsmáli um galla í fasteign eða við að þylja texta úr hugarheimi Shakespeare? Öll leggjum við eitthvað af mörkum til samfélagsins, dæmd sem ódæmd. Er ekki skárra að dómþolar afli sér lífsviðurværis í gegnum störf sem þeir eru menntaðir til, hafa áhuga á og eru góðir í – í stað þess að leggjast á velferðarkerfið, þar sem brotaþolar og aðrir samfélagsþegnar greiða í raun fyrir uppihald viðkomandi? Eða vegur refsigleðin og hefndargirnin svo mikið þyngra heldur en svo?

Á undanförnum árum hefur orðið mikil og góð þróun í fangelsismálum á Norðurlöndunum þar sem stefnt hefur verið að því að styrkja betrunarstefnuna í stað þess að halda uppi refsistefnu. Betrunarstefnan gengur út á það að sá tími sem varinn er í afplánun sé uppbyggilegur fyrir dómþolann, í stað þess að honum sé varið í tímabundna geymslu á kostnað skattgreiðenda. Þetta hefur gefið góða raun og leitt til lægri endurkomutíðni í fangelsi, sem þýðir raunar að afbrotum, og þ.a.l. þolendum, hefur fækkað. Markmið betrunarstefnunnar verður þó að viðhaldast þrátt fyrir að afplánun sé lokið. Útskúfun og brennimerking dómþola er miðaldarleg aðferð og hefur aldrei virkað. Þvert á móti kann útskúfun dómþola úr samfélaginu að skapa biturð og reiði og er þá frekar til þess fallin að auka líkur á endurtekningu afbrota.

Skerðing atvinnuréttinda er skerðing stjórnarskrárvarinna mannréttinda. Sú mikla og góða þróun sem hefur verið í fangelsismálum hefur verið í þá átt að vernda mannréttindi dómþola, jafnt sem annarra borgara. Til þess hefur þjóðin skuldbundið sig með alþjóðlegum sáttmálum. Skerðing atvinnuréttinda einstaklinga, sem þegar hafa tekið út sína refsingu, væri þannig mikið afturfararskref. Við sem manneskjur getum verið grimm og hefnigjörn og það er heimsins eðlilegasti hlutur. Hins vegar hefur verið ríkjandi almenn sátt um að samfélagið okkar þurfi að vera betra en svo. Samfélagið þurfi að vera miskunnsamt og mannúðlegt. Er ekki hægt að fallast á að veigamikil rök mæli með því að sýna dæmdum einstaklingum þá mannúð að gefa þeim annað tækifæri í lífinu eftir að þeir hafa afplánað þá refsingu sem var talin viðeigandi af dómstólum? Að útskúfa þá ekki og heimila þeim að sjá fyrir sér og fjölskyldum sínum, með því að vinna störf sem hæfir þeirra menntun, hæfileikum, dugnaði o.s.frv., eins og gengur og gerist með annað vinnandi fólk? Sé fólk ósammála þessu og almennt hlynnt afar yfirgripsmiklum skerðingum á mannréttindum dæmdra manna, er rétt að taka til skoðunar hvort það vilji ekki í raun fá lífstíðarfangelsi eða dauðarefsingar leidd í lög á Íslandi. Slíkar refsingar eru t.a.m. að finna í hinum ýmsu ríkjum sem við höfum almennt ekki viljað líkjast þegar kemur að fangelsismálum – eða mannréttindamálum yfirhöfuð. Fróðlegt væri að sjá hvort slíkar aðgerðir myndu leiða til réttlátara og betra samfélags – sem hlýtur að vera endanlegt markmið okkar allra. Eða hvað?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *