Guðmundur Ingi Þóroddsson

Að læra af reynslu

​Í gær lauk alþjóðlegri ráðstefnu, fyrstu sinnar tegundar, þar sem fjallað var um leiðir í viðurlögum við afbrotum á grundvelli reynslu í Evrópu. Gömul viðhorf, um að það sé góð leið að kasta fólki í dyflisu ef það virðir ekki þá samfélagssáttmála sem settir hafa verið í lög, virðast á útleið með aukinni þekkingu – sem byggð er á rannsóknum.
 
Margar leiðir, aðrar en fangelsi og fésektir, voru kynntar til sögunnar. Sáttarferli, meðferðarúrræði við brotum undir áhrifum lyfja og vímuefna, og aðferðir til að fá hinn brotlega til að horfast í augu við gjörðir sínar. Því ef einstaklingur keyrir ítrekað undir áhrifum efna sem brengla athygligáfur hans, mun hann vissulega ekki keyra ef hann er í fangelsi, en tilgangurinn hlýtur að vera að fá hann til að láta af hegðun sinni. Því hafa dómstólar fengið fleiri úrræði til að beita við úrlausn mála.
 
Til að dómari geti tekið upplýsta ákvörðun er lögð fyrir hann skýrsla (s.k. Pre-Trial Report) sem hann leggur til grundvallar, ásamt samtali við sakborning, áður en kveðinn er upp dómur í máli. Ásamt því að fallast á niðurstöðu dómarans, þar sem beitt er öðrum leiðum en fangelsisvist, er jafnframt möguleiki á að viðkomandi beri ökklaband ásamt öðrum skilyrðum. Í íslenskum lögum er heimild fyrir að beita meðferðarúrræði, en svo virðist sem því sé ekki beitt þar sem dómarar telja aðhald og eftirfylgni skorta. Víða í Evrópu hefur hins vegar myndast traust, með milliliðalausum samskiptum dómara við þá sem skilorðseftirlitinu sinna, sem hefur aukið beitingu annarra úrræða en fangelsisvist.
 
Úrræði byggð á rannsóknum
Á ráðstefnunni var fjallað um rannsóknir sem byggja á beitingu nýrra úrræða, enda rannsóknir grundvöllur þess að hægt sé að meta hvort ætluðum tilgangi sé náð; að koma í veg fyrir frekari afbrot. Sameiginleg þróun á matsskýrslum, sem gerðar eru við upphaf afplánunar, leiðir einnig til þess að raunverulegur samanburður er nú mögulegur milli landa. Á því byggja úrræðin sem beitt er. Ef kemur í ljós að þau eru ekki að virka, þá er öðrum aðferðum beitt.
 
Það er merkilegt og uppörvandi að sjá hversu mikið er litið til Norðurlandanna þegar kemur að betrunarúrræðum. Í gegnum þróunarsjóð EES landanna (sem eru 3 lönd; Noregur, Ísland og Liechtenstein) er jafnframt stutt við framfarir á þessu sviði í Evrópu. Noregur er þar í fararbroddi og styður með markvissum hætti við fjölda verkefna á þessu sviði með sérfræðiþekkingu, stuðningi og aðhaldi.
 
Ísland ekki með
Reyndar er það ofsögum sagt að telja Ísland með þeim löndum sem litið er til. Glærur með norrænum samanburði innihéldu enda ekki upplýsingar frá Íslandi, enda hér ekki stundaðar markvissar rannsóknir á þessu sviði. Þess er enda getið í norrænum samanburðarskýrslum, að í raun sé samanburðurinn ekki marktækur. Til þess að samanburður sé mögulegur þurfa löndin að hafa úrræði og kerfi sem hægt er að bera saman, en svo virðist sem Ísland fjarlægist æ meir þau lönd sem við viljum svo oft bera okkur saman við!
 
Á Íslandi höfum við þó góðan efnivið til að búa til gott betrunarkerfi; t.d. vel menntaða dómara, tvö opin fangelsi og ökklabönd. En, eins og Afstaða hefur ítrekað bent á skortir allt «innihald» hér á landi. Ef dómstólarnir hafa ekki nein önnur úrræði að beita en fésektir og fangelsi; ef ekkert einstaklingsmat fer fram og metin þörf á aðstoð; ef umsjón með ökklaböndum er bara falin einhverri öryggismiðstöð út í bæ, án þess að því fylgi einhver önnur úrræði, þá er ekki von á góðu.
 
En það vill svo til að aðstoðin stendur til boða. Aðstoð við að koma á fyrirmyndarkerfi að “norrænni fyrirmynd”. Það er eitthvað sem við ættum að nýta okkur!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *